UMF Sölvi Kjarnafæðimeistarar 2017

Sigurvegararnir sáttir í leikslok
Sigurvegararnir sáttir í leikslok

Kjarnafæði deild Knattspyrnudómarafélags Norðurlands var spiluðu í allt sumar og henni lauk í gærkvöldi. Þar höfðu sigur UMF Sölvi eftir skemmtilegan úrslitaleik gegn FC Úlfunum 010 sem endaði 4:1. Það voru svo enn fleiri leikir í gærkvöldi sem má lesa nánar um hér fyrir neðan. Kjarnafæði vill óska UMF Sölva til hamingju með sigurinn, þá viljum við þakka öllum liðunum fyrir þátttökuna í sumar og að síðustu KDN fyrir frábært samstarf. 

Hér fyrir neðan má svo lesa umfjöllun Jan Eric Jessen um þennan síðasta keppnisdag en nánar má einnig lesa um allt mótið á heimasíðu KDN.

 

UMF Sölvi er Kjarnafæðimótsmeistari 2017. Þetta varð ljóst í kvöld þegar lokaumferð Kjarnafæðideildar KDN var leikin í Boganum. Fyrir umferðina lá fyrir að leikur UMF Sölva og FC Úlfanna 010 yrði hreinn úrslitaleikur um sigurinn í mótinu, en eftir mjög jafnan og spennandi markalausan fyrri hálfleik hafði UMF Sölvi betur, 4-1.

Fyrri hálfleikur í leik UMF Sölva og FC Úlfanna 010 var svo sannarlega “stál í stál” og liðin tóku alls ekki mikla áhættu. Leikmenn UMF Sölva voru þó ívið sterkari og fengu hættulegri færi, en markvörður Úlfanna var vandanum vaxinn. Boltinn barst liða á milli en leikurinn heilt yfir rólegur. Staðan í hálfleik var markalaus. Sölvamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og uppskáru mark þegar einungis um þrjár mínútur voru liðnar af hálfleiknum, en þar var að verki nýr liðsmaður þeirra, Alexander Arnar Þórisson. Há fyrirgjöf kom frá vinstri kannti og Alexander hamraði boltann í markið með hægri fæti – óverjandi. Úlfarnir sóttu í sig veðrið eftir það og áttu nokkur skot á rammann en inn vildi boltinn ekki. Úlfarnir vildu meina að eitt skota þeirra hafi farið innfyrir línuna þegar boltinn fór í slá og þaðan niður í jörðina, en dómari leiksins var ekki á sama máli og lét leikinn halda áfram. Eftir þetta atvik færðist meiri hiti í leikinn. Sölvi bætti við öðru marki eftir að hafa unnið boltann eftir klafs á miðjunni og brunað fram, en aftur var það Alexander sem rak endahnútinn á sókn þeirra. Leikmenn Úlfanna mótmæltu aðdraganda marksins harðlega og vildu fá aukaspyrnu áður en markið var skorað. Mótmælin enduðu með því að Sinisa Pavlica, spilandi þjálfari Úlfanna, fékk að líta rauða spjaldið. Eftir þetta varð leikurinn þægilegur fyrir UMF Sölva sem bættu við tveimur mörkum (Alexander og Tumi Hrafn Kúld) gegn einu marki Úlfanna, en það skoraði Sigmar Þór Ármannsson. Niðurstaðan varð 4-1 sigur UMF Sölva sem er þar með eins og fyrr segir Kjarnafæðimótsmeistari ársins 2017.

FC Sopalegir mættu Hata í kvöld. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, og leikurinn heilt yfir frekar líflegur. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 3-2 fyrir FC Sopalegum. Leikmenn FC Sopalegra skoruðu tvö mörk á fyrstu tveimur mínútum síðari hálfleiks og gerðu leikmönnum Hata þar með erfitt fyrir að snúa leiknum sér í vil. FC Sopalegir sóttu mikið í síðari hálfleik og unnu að lokum sigur, 11-3. Ales Mucha skoraði fjögur mörk fyrir FC Sopalega, Arngrímur Arnarson þrjú og þeir Guðni Már Kjartansson og Jónas Halldór Friðriksson tvö mörk hvor. Fyrir Hata voru það Arnór Gunnar Ingvarsson, Guðmundur Geir Hannesson og Sævar Eðvarðsson sem sáu um markaskorunina.

FC Böggur vann góðan sigur á FC Jattebrä í miklum markaleik. Ljóst var strax frá upphafi að bæði lið ætluðu sér að leggja meiri áherslu á sóknarleik heldur en varnarleik og skora mörk í síðustu umferðinni. Staðan í hálfleik var 5-3, FC Böggur í vil. Í síðari hálfleik hélt markaskorunin áfram, og heldur dró í sundur með liðunum. FC Böggur vann að lokum sigur, 11-5. Aðalsteinn Jónsson skoraði fjögur mörk fyrir FC Jattebrä og Gunnar Árnason eitt. Jón Björn Þorsteinsson var atkvæðamestur hjá FC Böggur með fjögur mörk, en þá skoruðu þeir Davíð Örn Oddsson, Hannes Bjarni Hannesson, Jón Örvar Eiríksson, Jón Pétur Indriðason, Karl Ólafur Hinriksson, Sigurður Haukur Valsson og Óðinn Stefánsson eitt mark hver.

Þá mættu lið FC Mývetninga og KS ekki í leiki sína í kvöld. Það þýðir að 603 sigrar FC Mývetning 3-0 og Æskan sigrar KS 3-0.

Alexander Arnar Þórisson, leikmaður FC Jattebrä og UMF Sölva, var markahæsti maður mótsins með 23 mörk. Í öðru sæti varð Ingólfur Stefánsson hjá Æskunni með 16 mörk, og Magnús Ingi Birkisson hjá UMF Sölva varð þriðji með 13 mörk.

Knattspyrnudómarafélag Norðurlands óskar UMF Sölva innilega til hamingju með sigurinn í deildinni, en vill á sama tíma þakka öllum þeim liðum, leikmönnum og forráðamönnum sem þátt tóku í mótinu kærlega fyrir sumarið.