Stjórn Kjarnafæðis Norðlenska fór yfir afkomu ársins 2024 á fundi sínum í gær. Afkoman var neikvæð sem nemur um 250mkr fyrir skattaleg áhrif á árinu. Mikil breyting var á afkomu félagsins samanborið við 2023 þegar hagnaður varð af reksri.
Stærstu áhrifaþættir versnandi afkomu eru miklar kostnaðarhækkanir á aðföngum, launum og þjónustu. Félagið tók þátt í viðleitni atvinnulífsins til að ná tökum á verðbólgu á Íslandi og hækkaði verð á sínum framleiðsluvörum að meðaltali minna en almenn verðlagsþróun og kostnaðarhækkanir gáfu tilefni til. Þá voru vaxtagjöld á árinu um 512mkr, sem er 47mkr aukning frá árinu áður. Veldur þar hærra vaxtastig og hærri staða afurðalána vegna verðhækkana til bænda.
Forsenda þess að talið var unnt að stilla verðbreytingum mjög í hóf á sama tíma og afurðaverð til sauðfjárbænda í sláturtíð 2024 hækkaði um 12% samanborið við fyrra ár, voru áætlanir um hagræðingu sem breytingar á búvörulögum frá því í apríl 2024 gerðu mögulega. Tekin var ákvörðun um að greiða hluta væntrar hagræðingar út til neytenda og bænda fyrirfram, en ætlunin var að hefja hagræðingaraðgerðir í lok árs 2024. Í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í nóvember 2024 og tilmæla Samkeppniseftirlitsins stöðvuðust allar stærri hagræðingaraðgerðir með tilheyrandi tjóni fyrir félagið.
Sú óvissa sem skapast hefur um heimildir til hagræðingar hefur haft veruleg truflandi áhrif á rekstur félagsins og ljóst að ef ekki verður unnt að hagræða verulega í rekstri, umfram það sem þegar hefur verið gert, mun það hafa neikvæð áhrif á getu félagsins til að halda aftur af verðhækkunum og draga úr greiðslugetu þess til bænda.