Offramboð hefur verið á svínakjöti og framleiðsla á kjúklingum, sem hefur verið í lægð undanfarið, er að aukast mikið. Sauðfjárbændur telja að þetta valdi því að þeir verði í erfiðleikum með að verja stöðu sína á markaðnum.
Eiður Gunnlaugsson framkvæmdarstjóri Kjarnafæðis segir tímabilið framundan geta orðið snúið, vegna undirboða. Sérstaklega sé þróunin í hvíta kjötinu svokallaða (kjúklingar og svínakjöt) ógnvægileg og líklegt sé að þar muni eitthvað gefa eftir á næsta ári.