Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson |
Einfalt! Venjulega setur Margrét lærið í kalt vatn ofan í ofnpott og sýður það svo við vægan hita í um tvær klukkustundir. Gott er að láta það standa í dálítinn tíma áður en það er borið fram. En saltlæri er í rauninni léttsaltað lambalæri sem búið er að verka fyrir reykingu. |
Lengi vel var venjan að borða saman hangikjöt með tilheyrandi fyrsta kvöldið en fyrir nokkrum árum varð þar breyting á. "Ég stakk upp á því að við myndum hafa saltlæri í staðinn og eftir það hefur ekkert annað komið til greina." Margrét útskýrir að saltlæri sé í rauninni léttsaltað lambalæri sem búið er að verka fyrir reykingu.
"Pabbi Gunnars, mannsins míns, kynntist saltlærinu í gegn um vin sinn, Hauk P. Ólafsson, frystihússtjóra hér á Akureyri og við féllum alveg fyrir því. Það er miklu mildara en hangikjötið og bæði safaríkara og meyrara." Hún bætir því við að matreiðslan á því sé einföld. "Ég sýð það á sama hátt og hangikjöt og ber fram með jafningi og öðru hangikjötsmeðlæti. Mér finnst oft gaman að bjóða útlendingum upp á þetta sem koma til okkar í heimsóknir og til dæmis gaf ég Kiri Te Kanawa þetta einu sinni þegar hún kom til okkar í mat." Og nýsjálensku óperudívunni féll saltlærið vel í geð. "Henni fannst það æðislegt og hafði orð á því að það væri ekki ósvipað mat sem var gjarnan á boðstólum heima hjá henni þegar hún var barn."
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson |
Veisla. Menn tóku hraustlega til matar síns í að venju. |
En hvar skyldi vera hægt að nálgast þetta góðgæti? "Ég hef pantað það frá Kjarnafæði," svarar Margrét. "Þar er það alltaf til annað slagið enda reglulega verið að undirbúa kjöt fyrir reyk."
Saltlæri
Lærið er sett í stóran pott með köldu vatni og soðið við vægan hita í tvo tíma, lengur ef lærið er stórt. Gott er að láta það standa í svolitla stund áður en það er borið fram með kartöflum, jafningi, grænum baunum og rauðrófum.
Jafningur
mjólk
ca 50 g saltlaust smjör
ca 3 msk. hveiti
örlítill sykur
salt
pipar
nýmalað múskat
soð af grænum baunum
Mjólkin er hituð. Smjörið er brætt í potti og hveitið sett út í. Þetta er hrært út með forhitaðri mjólkinni og kryddað með salti, pipar, nýmöluðu múskati og örlitlum sykri. Að lokum er svolítið soð af grænum baunum hrært saman við.
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson |
Hefðir. Saltlærið hefur nú tekið við af hangikjötinu í bústaðnum. |
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu.