Allar afurðir voru greiddar einni viku eftir sláturdag og voru greiðslukjör félagsins því ein þau bestu sem buðust bændum þetta haustið.
Af fenginni reynslu er ljóst að enn er svigrúm til aukinnar sauðfjárslátrunar á Blönduósi. Ný endurnýjuð sauðfjárrétt gegnir þar lykilhlutverki, en einnig hafa kælar verið stækkaðir á liðnum árum og frystivélasalur efldur. Því má ætla að unnt sé að slátra ríflega 100.000 fjár með hagkvæmum hætti á hverju hausti í sláturhúsi félagsins.
Aukin slátrun fullorðinna hrossa
Síðastliðinn vetur ákvað stjórn SAH Afurða að leggja áherslu á að finna markaði innanlands fyrir kjöt af fullorðnum hrossum. Vinna þessi fór fram í samvinnu við Kjarnafæði og hefur skilað mjög góðum árangri.
Um 600 fullorðnum hrossum hefur verið slátrað það sem af er árinu og hefur slátrun fullorðinna hrossa ekki verið meiri í langan tíma. Ljóst er að nokkur uppsöfnuð þörf var orðin fyrir þessa slátrun, því enn er framboð mikið, þótt biðlistar séu ekki langir.