Stórviðburður í norðlenskri matarmenningu
Félagið Matur úr héraði - Local food mun standa fyrir sýningunni MATUR-INN 2007 í Verkmenntaskólanum á Akureyri dagana 12.-14. október næstkomandi. Sýningunni er m.a. ætlað að endurspegla fjölbreytileikann í norðlenskri matarmenningu í víðum skilningi og vera um leið nokkurs konar uppskeruhátíð.
Markmiðið er að sýningin verði sem glæsilegust. Síðast var sýningin haldin árið 2005 og skiptu þá sýningargestir þúsundum en nú er sýningarsvæðið stærra og gefur meiri möguleika til enn fjölbreyttari sýningar.
Sýningarsvæði úti og inni
Sýningarsvæði innadyra er í Gryfjunni og nýjum fjölnotasal Verkmenntaskólans. Ennfremur verður sýningarsvæði utan dyra ef áhugi reynist fyrir hendi hjá sýnendum.
Félagar í Matur úr héraði - Local food munu á sýningunni kynna sínar áherslur í eyfirskri matarmenningu. Hugmyndin er einnig að bjóða upp á markaðstorg þar sem boðnar yrðu til sölu ýmsar vörur sem tengst geta þema matarþema sýningarinnar. Alveg upplagt að tryggja sér markaðsbás í tíma og selja t.d. ber, grænmeti, sultur, broddmjólk eða hvaðeina sem seljendum hugkvæmist að bjóða.
Bókið sýningarsvæði í tíma - fyrstur kemur fyrstur fær!
Tryggið ykkur þátttökurými í tíma. Fyrirspurnir eða óskir um sýningarsvæði eða nánari upplýsingar sendist til Ólínu Freysteinsdóttur, starfsmanns félagsins Matur úr héraði, á netfangið olina@unak.is. Skráningarblað er væntanlegt hingað á heimasíðuna.