Samkvæmt tilkynningu frá Mast bendir ekkert til þess að kórónaveiran sem veldur Covid-19 sjúkdómnum, berist með matvælum. Það er auðvitað ánægjuefni fyrir alla matvælaframleiðslu sem og neytendur en þrátt fyrir það beytir Kjarnafæði öllum ýtrustu leiðum til að forðast smit meðal starfsmanna. Notast er við allar helstu ráðleggingar bæði Mast og embætti landlæknis, auk þess sem fylgt er nú sem endra nær ströngu gæðakerfi bæði Mast og BSI.
Hér fyrir neðan má lesa fréttatilkynningu Mast.
Engar vísbendingar eru um að SARS-CoV-2 veiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum berist með matvælum skv. nýútgefnu áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA).
EFSA bendir á að reynsla fyrri faraldra af völdum skyldra kórónaveira, s.s. SARS-CoV og MERS-CoV faraldrarnir, sýni að smit átti sér ekki stað með matvælum. Sem stendur bendir ekkert til þess að annað eigi við um þann faraldur sem nú geisar.
Stjórnvöld og vísindamenn um heim allan fylgjast náið með þróuninni og hefur ekki verið tilkynnt um smit með matvælum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið út ráðleggingar um meðhöndlun matvæla í varúðarskyni þar sem hvatt er til handþvottar, að hita kjöt í gegn og að forðast krossmengun milli eldaðra og hrárra matvæla. Nánari upplýsingar er að finna á vef WHO.