Undirritaður var á dögunum samningur til fjögurra ára milli Kjarnafæðis og Klúbbs matreiðslumeistara (KM). Samningurinn var undirritaður í nýbyggðu skrifstofuhúsnæði Kjarnafæðis á Svalbarðseyri, þangað sem öll starfsemi fyrirtækisins er nú flutt. Samningurinn er mjög góður og mikil ánægja með hann hjá báðum aðilum.
Kjarnafæði styrkir KM bæði með fjárframlagi og einnig gæða hráefni. KM mun hinsvegar vinna með Kjarnafæði í kynningum, við uppskriftir og að auglýsa gæði Kjarnafæðis.
Ólafur Már Þórisson markaðsstjóri Kjarnafæðis ritaði undir samninginn og hafði eftirfarandi um hann að segja. "Kjarnafæði er stoltur samstarfsaðili KM og teljum við það nauðsynlegt til að styðja við og halda áfram þróun á íslenskum matvælum og ekki síður matreiðslu. KM og félagsmenn hans eiga stóran þátt í þeirri þróun sem hefur orðið á gæðum veitingastaða Íslands á undanförnum árum og það viljum við styðja."
Fyrir hönd KM skrifaði undir samninginn Júlía Skarphéðinsdóttir meðstjórnandi. Hún sagði helstu verkefni Klúbbs matreiðslumeistara vera eftirfarandi, bæði heima og erlendis. "Við sjáum um rekstur Kokkalandsliðsins, keppnina um matreiðslumann ársins, árlega þáttöku í Norðurlandakeppninni „Nordic chef“, ungliðastarf og nýliðunarstarf, árlegan 300 manna Hátíðarkvöldverður og þáttöku í Norrænu og alþjóðlegu starfi matreiðslumanna. Verkefnin lúta að því að styrkja íslenska matreiðslu og byggja frekar upp innviði veitinga og ferðaþjónustu landsins með áherslu á nýtingu alls þess besta sem íslenskir framleiðendur hafa upp á að bjóða."