Eiður Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis telur ýmsar ástæður skýra auknar vinsældir innmatarins og unninna kjötvara. Þar á meðal sé hagstætt verð á innmat og unnum vörum. Íslendingar séu orðnir víðförlir og veraldarvanir og fólk sjái hvað aðrar þjóðir borða fjölbreyttari mat en við höfum vanist undanfarin ár. Á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu og víðar er mikil hefð fyrir ýmsum pylsutegundum og öðrum unnum kjötvörum.
Eiður segir að í seinni tíð hafi Íslendingar valið að borða lungann úr afurðum, steikur og þess háttar gæðabita, sem kosta sitt, en sneitt hjá ódýrari bitunum.
Eiður kveður sölu á lifrarpylsu og blóðmör hafa aukist mjög, en Kjarnafæði selur bæði ósoðið frosið og soðið slátur. Meðal kaupenda eru stofnanir á borð við leikskóla, grunnskóla og verslanir. Þá segir Eiður að hollusta innmatar og afurða úr honum sé mikil. Hann nefnir t.d. að læknar ráðleggi guggnum unglingsstúlkum að borða slátur sér til heilsubótar.
Útlendingar sem flutt hafa hingað gera sér einnig mat úr ýmsu sem við höfum hent. Eiður nefnir að verslanir og veitingamenn falist í auknum mæli eftir að fá keypta svínaskanka, svínabein og lambanýru, svo eitthvað sé nefnt en hingað til hefur þessum afurðum að mestu verið fargað.
‘Meðan við höfum borðað miðjuna úr nautalundinni og öðrum steikum, sem er að sjálfsögðu gott, nýta aðrar þjóðir feitu endana af svínasíðunni og beinin og sjóða úr þessu súpu. Verðlagið þarna á milli er auðvitað ekki samanburðarhæft. Það er orðin miklu meiri eftirspurn eftir því sem við töldum varla söluvöru áður fyrr. Hreinlega orðin sprenging í sölu á lambalifur og –hjörtum og afurðum unnum úr því eins og lifrarbuffi og lambahjartasnitseli. Þetta er mjög jákvæð þróun og ég hef beðið eftir henni í mörg ár. Vakning hefur orðið varðandi gamlar íslenskar matarhefðir og nú sækjast nýjar kynslóðir í auknum mæli eftir mat sem ekki hefur verið í tísku í tvo til þrjá áratugi. Það er vel hægt að kaupa góðan og ódýran heimilismat á Íslandi ef fólk er svolítið hagsýnt.’
Fréttin birtist upphaflega sem hluti af Morgunblaðsgrein