Guðrún Elfa Skírnisdóttir hönnuður verðlaunamerkis fyrir eyfirska matvælaframleiðslu og matarmenningu
Í athöfn í Ketilhúsinu á Akureyri 30. nóvember afhenti Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, verðlaun í samkeppni um hönnun merkis fyrir félagið “Matur úr héraði – Local food” en félagið hefur að markmiði að vekja athygli á eyfirskum matvælum og matseld. Með merkinu verður til nokkurs konar gæðastimpill fyrir eyfirskt hráefni, matvælaframleiðslu eða matseld. Verðlaunamerkið í samkeppninni er hannað af Guðrúnu Elfu Skírnisdóttur. Við athöfnina í dag var Friðrik V. Karlsson, veitingamaður og eigandi veitingastaðarins Friðrik V á Akureyri heiðraður sérstaklega fyrir að hafa með öflugum hætti haldið heiðri eyfirskrar matvælaframleiðslu og matarmenningar á lofti hérlendis og erlendis.
Félagið “Matur úr héraði – Local food” var stofnað í maí síðastliðnum og er upprunnið úr starfi innan matvæla- og ferðaþjónustuklasa Vaxtarsamnings Eyjafjarðar. Félagið hefur að markmiði að hefja á loft eyfirsk matvæli og eyfirskt eldhús. Eitt af fyrstu verkefnum félagsins var að hrinda í framkvæmd samkeppni um hönnun merkis sem nota mætti sem einkenni og gæðastimpil fyrir matvælaframleiðslu og matarmenningu í Eyjafirði í víðum skilningi.
Nítján tillögur í samkeppninni
Í samkeppnina bárust nítján tillögur sem dómnefnd tók til umfjöllunar. Sigurvegari í samkeppninni varð Guðrún Elfa Skírnisdóttir og fékk hún 200 þúsund krónur í verðlaunafé, auk “gourmet” máltíðar á veitingahúsinu Café Karólínu á Akureyri. Önnur verðlaun, sem eru matarkarfa með úrvali af eyfirskum matvælum og máltíð fyrir tvo á veitingahúsinu Greifanum á Akureyri, komu í hlut Huldu Ólafsdóttur. Þriðju verðlaun komu í hlut Brynhildar Kristinsdóttur sem fékk matarkörfu með úrvali af eyfirskum matvælum að launum.
Dómnefnd samkeppninnar skipuðu Þórhallur Kristjánsson grafískur hönnuður, Arna Valsdóttir myndlistarkona, Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar, Logi Már Einarsson, arkitekt, Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, Lárus Orri Sigurðsson, knattspyrnuþjálfari og Auðjón Guðmundsson, markaðstjóri Kjarnafæðis og formaður félagsins “Matur úr héraði – Local food”.
Veitingamaðurinn Friðrik V. Karlsson heiðraður
Við athöfnina í dag fékk Friðrik V. Karlsson, veitingamaður, heiðursviðurkenningu félagsins Matur úr héraði fyrir að hafa verið óþreytandi í kynningu sinni á eyfirskri matarmenningu. Sem kunnugt er var veitingastaður hans og Arnrúnar Magnúsdóttur, eiginkonu hans, valinn einn af 100 bestu svæðisbundnu veitingastöðum í Evrópu en veitingastaðinn Friðrik V hafa þau rekið frá árinu 2001. Segja má að Friðrik hafi verið einn helsti upphafsmaður hins formlega samstarfs um eyfirska matarmenningu sem nú er orðið til og verið óþreytandi á sínum veitingastað að segja gestum sínum frá eyfirsku hráefni og að sjálfsögðu hafa það í fyrirrúmi á matseðlinum.
Mörg verkefni framundan
Félagið “Matur úr héraði – Local food” mun á komandi misserum vinna að markaðssetningu á verkefninu í heild og eflingu samstarfs þeirra aðila á Eyjafjarðarsvæðinu sem koma að matvælameðhöndlun á einhvern hátt, tengja saman eyfirska matvælaframleiðendur og veitingamenn, taka þátt í sýningum og viðburðum þar sem tækifæri gefast á að kynna eyfirsk matvæli og eldhús og þannig mætti telja. Með tilkomu nýja merkisins opnast öllum aðilum í matvælagreininni á svæðinu möguleiki á að einkenna vörur sínar á skýran hátt upprunanum á Eyjafjarðarsvæðinu. Slík tenging má telja að sé nokkuð ný af nálinni hér á landi.
Þátttaka í félaginu “Matur úr héraði – Local food” er opin öllum þeim sem starfa við matvæli á Eyjafjarðarsvæðinu á einn eða annan hátt, t.d. matvælafyrirtæki og veitingahús.
Stjórn félagsins er skipuð fimm fulltrúum og kjörin af félagsmönnum á aðalfundi. Stjórnina skipa nú: Auðjón Guðmundsson, Kjarnafæði, Hanna Dögg Maronsdóttir, Norðurmjólk, Ingvar Már Gíslason, Norðlenska, Sigurbjörn Sveinsson, KEA Hótel og Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla á Dalvík.