Fjölskyldufyrirtækið Kjarnafæði 30 ára

Stofnendurnir Hreinn og Eiður. Mynd/Skapti mbl.is
Stofnendurnir Hreinn og Eiður. Mynd/Skapti mbl.is

Kjarnafæði er 30 ára í dag 19 mars og vilja bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir, stofnendur fyrirtækisins þakka landsmönnum frábæra samleið á liðnum árum. „Samheldin starfsmannahópur er lykillinn í rekstri hvers fyrirtækis og færum við því öllu því starfsfólki sem unnið hefur hjá fyrirtækinu kærar þakkir fyrir. Okkar frábæru viðskiptavinir hafa séð til þess að við höfum getað haldið úti rekstri í 30 ár og vonandi heldur hann áfram um ókomna tíð,“ segir Eiður Gunnlaugsson forstjóri Kjarnafæðis við þessi stóru tímamót. 

Í upphafi fór starfsemi þessa fjölskýldufyrirækis fram í litlu húsnæði, þar sem þeir bræður unnu ásamt fjölskyldum sínum. Fyrstu árin var aðaláherslan lögð á að framleiða pizzur og hrásalat. Ört vaxandi starfsemi fyrirtækisins kallaði á stærra húsnæði og í október 1987 flutti fyrirtækið í húsnæði að Fjölnisgötu 1 á Akureyri. Árið 1993 festi Kjarnafæði kaup á húsnæði á Svalbarðseyri og eftir gagngerðar endurbætur og uppbyggingu flutti fyrirtækið stóran hluta af starfsemi sinni þangað. Það var svo úr að öll starfsemi fyrirtækisins var flutt á Svalbarðseyri í febrúar árið 2014. 

Um þessar mundir er Kjarnafæði eitt stærsta og öflugasta kjötvinnslufyrirtæki landsins og í stöðugri aukningu. 

Fyrirtækið leggur mikla áherslu á vöruvöndun og gæði framleiðslunar og að veita skjóta og góða þjónustu. Fyrirtækið hefur á að skipa mjög hæfu starfsfólki og góðum tækjakosti. Nú starfa um 130 manns hjá Kjarnafæði og hafa margir þeirra starfað allt frá fyrstu árum fyrirtækisins.