Talið er að yfir 10 þúsund manns hafi lagt leið sína á sýninguna MATUR-INN 2007 sem haldin var í Verkmenntaskólanum á Akureyri um helgina og helguð varð norðlenskum mat og matarmenningu. Fyrir sýningunni stóð félagið Matur úr héraði – Local Food og tóku um 60 norðlenskir sýnendur þátt í henni. Sýning undir sama nafni var haldin fyrir tveimur árum en bæði sýnendafjöldi og aðsókn var tvöfalt meira í ár. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, opnaði sýninguna formlega á laugardag og lýsti yfir mikilli ánægju með það sem fyrir augu hans bar á sýningarsvæðinu. Ýmsar keppnir og viðburðir fóru fram samhliða sýningunni og vöktu mikla athygli sýningargesta.
„Erum hæstánægð“
„Við getum ekki annað en verið í skýjunum með sýninguna. Aldrei áður hafa jafn margir norðlenskir aðilar sem koma að mat og matarmenningu komið saman í einum viðburði og allir eru hæstánægðir með hvernig til tókst. Allir lögðust á eitt að gera sýninguna sem veglegasta og faglegasta og við heyrðum glögglega á sýningargestum að þeim fannst mikið til koma. Markmiðið er að festa MATUR-INN sýninguna í sessi sem fastan lið annað hvert ár og viðtökurnar um helgina gefa okkur, samstarfi Norðlendinga á matvælasviðinu og þessu unga félagi að baki sýningunni, Matur úr héraði – Local Food, sannarlega byr í seglin,“ segir Júlíus Júlíusson, talsmaður sýningarinnar og stjórnarmaður í félaginu Matur úr héraði.
Matreiðslumaður ársins og Kjötiðnaðarnemi ársins
Fjölmargir viðburðir fóru fram samhliða sýningunni. Á laugardag var úrslitakeppni Klúbbs matreiðslumeistara um titilinn Matreiðslumaður ársins 2007 og kepptu fimm landskunnir matreiðslumenn til úrslita. Sigurvegari varð Þráinn Freyr Vigfússon, matreiðslumaður á Grillinu Hótel Sögu.
Á laugardag fór einnig fram keppni nema í kjötiðn og fékk hver um sig það verkefni að vinna úr einum lambsskrokk. Sigurvegari varð Jón Þór Guðmundsson, nemi hjá Kjarnafæði á Akureyri. Að keppninni lokinni var hráefnið boðið upp og nam hæsta boð í kjöt sigurvegarans 20 þúsund krónum. Ágóðinn af uppboðinu rann til Hetjanna, félags aðstandenda langveikra barna á Norðurlandi.
Á sunnudag vakti matreiðslukeppni þjóðþekktra einstaklinga mikla athygli sýningargesta. Þátttakendur voru þau Kristján Möller, samgönguráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri LA, Ágúst Ólafsson, forstöðumaður RÚV Akureyri og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital. Þau fengu það verkefni að elda veislumat fyrir fjóra úr nautalund og ýmsu öðru hráefni og eftir harða keppni stóð Ágúst Ólafsson uppi sem sigurvegari.
Í lok sýningarinnar veitti Matur úr héraði – Local Food frumkvöðlaverðlaun félagsins í annað sinn. Þau hlaut fyrirtækið Ektafiskur á Hauganesi sem hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum fyrir stöðuga uppbyggingu í vinnslu á saltfiski og fjölbreyttum saltfiskréttum. Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, veitti viðurkenninguna fyrir hönd félagsins og við henni tóku eigendur fyrirtækisins, þau Elvar Reykjalín og Guðlaug J. Carlsdóttir.
Báða sýningardagana fóru fram uppboð á matarkörfum með framleiðslu norðlenskra matvælaframleiðenda. Ágóði af uppboðunum, 230 þúsund krónur, rennur til Hetjanna – aðstandendafélags langveikra barna á Norðurlandi.