Sláturhús Vopnafjarðar er annað tveggja sláturhúsa sem svíða hausa með gamla laginu, þ.e. með kósangasi, og hreinsa svo sviðin með hreinu vatni. Slík meðferð sviða gefur að sögn sláturhússtjóra hærra verð og þau seljast jafnan upp.
Sláturhús vopnfirðinga er annað af tveimur sláturhúsum í landinu sem selja sviðahausa verkaða á gamla mátann. Mikil eftirspurn er eftir slíku þar sem mönnum þykir mörgum þunnur þrettándi í bragði hinna nýmóðins verkuðu sviðahausa. Á þetta líklega einkum og sér í lagi við eldra fólkið í landinu.
'Við svíðum hausana á gamaldags máta, þ.e. ekki með gasi og súr heldur bara með kósangasi' segir Þórður Pálsson sláturhússtjóri í Sláturhúsi Vopnfirðinga og bætir við að enginn sódi sé settur í vatnið hjá þeim heldur liggi hausarnir í bleyti i klukkutíma í volgu vatni og séu svo þrifnir með háþrýstidælu og köldu vatni. 'Þeir gera þetta á Kópaskeri líka, en afkastameiri sláturhús nota gas og súr og þá eru hausarnir sviðnir við miklu meiri hita. Við og þeir á Kópaskeri höfum viljað verka þetta svona og höfum getað fengið hærra verð fyrir sviðin þess vegna.' Þórður segir eftirspurn mikla. 'Það hefur alltaf verið gott að selja svið héðan og okkar svið fara nánast öll í gegnum Kjarnafæði, nema það sem við seljum hér á heimamarkaði. Þetta elst allaf upp.'
Haustslátrun í fullum gangi
Slátrun gengur vel í Sláturhúsi Vopnfirðinga, en þar verður slátrað alls 26 þúsund fjár. Þarf af á milli 16.000 og 17.000 fjár af svæðinu austan Hellisheiðar og um 9.000 úr Vopnafirði og Bakkafirði.
Um miðja vikuna sagðist Þórður vera búinn að lóga rúmlega 8.000 fjár. Hann segist slátra um 1.000 fleira nú en í fyrra. Húsið sé ekki fullnýtt og stafi það af því að meira hefði mátt koma inn í fyrsta hluta sláturtíðar. 40 manns eru í fullu starfi við slátrun og fjórir í hálfsdagsvinnu við að færa kjötið inn á morgnana. Af þessum mannskap eru um 20 útlendingar.
Eftir Steinunni Ásmundsdóttir.
Frétt úr Morgunblaðinu (20. sept. 2007)