Kjarnafæði hélt upp á 25 ára afmæli sitt með stórri grillveislu í miðbæ Akureyrar um verslunarmannahelgina. Sveppi og Villi skemmtu gestum, ásamt því að Dýrin í Hálsaskógi kíktu í heimsókn og stórsöngvarinn Eyþór Ingi Gunnlaugsson tók nokkur vel valin lög. Svo var Íslandsmeistaramótið í pylsuáti haldið, þar sem Einar Haraldsson kom, sá og sigraði.
Það hefur gengið á ýmsu þessi 25 ár en fyrirtækið var stofnað af þeim bræðrum Eiði og Hreini og hefur verið rekið af þeim æ síðan. Haraldur Ingólfsson tók stutt spjall við þá bræður í tilefni dagsins.
Með tvær hendur tómar
Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir stofnuðu Kjarnafæði til þess einfaldlega að vinna fyrir sér eftir atvinnumissi vegna gjaldþrots þáverandi vinnuveitanda. „Það má segja það, við stóðum uppi atvinnulausir á þrítugsaldri,“ segir Hreinn. Hann hafði þá verið sláturhússtjóri hjá Kaupfélagi Svalbarðseyrar og Eiður hafði lært kjötiðn og starfaði á því sviði hjá félaginu. „Það var upphafið. Við höfðum enga peninga og byrjuðum þess vegna að gera þetta heima í bílskúr,“ segir Eiður. „Síðan þróast þetta, þannig að við stoppum stutt í bílskúrnum, fáum þá inni hjá Akureyrarbæ í svokölluðum iðngörðum í Fjölnisgötunni.“
Þrátt fyrir hraðan vöxt og starfsemi, fyrst á Akureyri og síðar Svalbarðseyri, Vopnafirði, Blönduósi, Akranesi og Mosfellsbæ hafa bræðurnir þó aldrei beinlínis markað sér stefnu um það hvert þeir vilja fara með fyrirtækið, það hefur einfaldlega þróast. „Þetta hefur aldrei verið neitt þannig planlagt hjá okkur. Það eina sem við hugsuðum var bara að vinna fyrir okkur. Við hugsuðum aldrei lengra fram í tímann en að reyna bara að skapa okkur eitthvað sem við hefðum tekjur af og gætum lifað af. Þetta hefur spilast hægt og bítandi áfram,“ segir Eiður.
Gott samstarf
„Við gerðumst þátttakendur í slátrun, fyrst á Vopnafirði og höfum átt sérstaklega gott samstarf við bændur. Síðan fórum við vestur á Blönduós þar sem við höfðum átt gott samstarf við Sölufélag Austur-Húnvetninga. Sá háttur hefur verið á að heimamenn stjórna þessu í samstarfi við okkur og þetta samstarf hefur gengið með ágætum, öllum til mikilla hagsbóta,“ segir Eiður.
Norðanfiskur byrjaði eiginlega sem „gæluverkefni“ en er nú starfrækt á Akranesi í samstarfi við HB Granda og Brim. „Við sáum niðri í ÚA (Útgerðarfélagi Akureyringa) á sínum tíma að þar var gnótt af hráefni, sem ekki gekk í útfluttning en hægt var að gera meira úr þeim fiski en hafði verið gert fram að því. Við komum með þekkingu frá því sem við vorum að gera í kjötinu, þeir höfðu þekkingu á sjávarafurðum og þetta small vel saman.“
Markmiðið er alltaf að vanda sig
„Það sem við erum að gera, það reynum við að gera vel,“ segir Eiður þegar talið berst að stefnumótun. Við höfum lagt áherslu á að nota eins lítið af aukaefnum og hjálparefnum og hægt er að komast af með. Það var á tímabili mikill þrýstingur á okkur að bæta ýmsum aukaefnum í matvæli, en við höfum reynt að sneiða hjá því. Við viljum hafa það þannig að ef neytandinn vill kaupa sem hreinasta vöru þá megi hann treysta því að hún sé eins hrein og mögulegt er hjá okkur. Það má segja að þetta hafi verið stefna okkar núna síðari ár,“ segir Eiður.
Eiður segir þetta vera hluta af velgengni fyrirtækisins. „Ég held það. Ég vil trúa því að þetta sé að hluta ástæðan fyrir því að fyrirtækið hefur gengið vel. Við höfum verið íhaldssamir á miklar breytingar, miklar kúvendingar, og viljað vera fastheldnir á gamlar hefðir og ekki viljað örar og miklar breytingar.“
Fólkið er fyrirtækið
Samstarf þeirra bræðra hefur alltaf verið gott og hlutverk þeirra alveg skýr frá upphafi. „Það er bara einn skipstjóri,“ segir Hreinn og á við að þegar allt kemur til alls þurfi að vera einn æðsti stjórnandi. Þeir benda þó á að rekstur fyrirtækisins og velgengni hvíli á fólkinu sjálfu, almennu starfsfólki og svo öflugu stjórnunarteymi, tíu til fimmtán manns sem halda í sameiningu um stjórnartaumana.
Fyrirtækið hefur átt því láni að fagna að starfsfólk hefur haldið tryggð við það og margir sem þar starfa eru með langan starfsaldur og mikla þekkingu og reynslu. En hver er ástæða þessarar velgengni? „Það er svosem engin uppskrift að því. Fólk er ekki vélar. Maður verður að umgangast það sem fólk, ekki sem vélar,“ svarar Hreinn og Eiður heldur áfram: „Ég held að styrkleiki hjá okkur báðum liggi í því að við höfum báðir unnið á gólfinu. Við þekkjum þessa hefðbundnu gólfvinnu, við skiljum þarfir fólks sem vinnur erfiðisvinnu. Við stöndum ekki með skeiðklukku fyrir aftan fólk.“
Hreinn segir þetta í raun einfalt: „Fólkið er fyrirtækið. Ef við hefðum ekki fólkið þá væri þetta ekki neitt.“
Framtíðin björt
„Hjá mörgum þessara fyrirtækja sem hafa verið í úrvinnslu á undanförnum 10-15 árum hefur landslagið að mörgu leyti ekki verið gott,“ segir Eiður. „Á meðan allt annað hefur blómstrað í kringum okkur hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel í þessum iðnaði og stundum svo komið að maður hefur kviðið næsta degi, næstu misserum, næstu árum. Maður hefur ekki séð út úr því. En einhvern veginn hef ég núna á tilfinningunni að það sé að koma betri tíð hvað þetta varðar. Ég hef trú á að eftir það sem við höfum gengið í gegnum sé fólk farið að sjá að venjulegur íslenskur iðnaður er mannfrekur, við þurfum á honum að halda. Þetta er ekkert hallærislegt, þetta er flott.“
Hreinn bætir við: „Ég upplifi það líka þannig að það sé meiri eftirspurn eftir okkar vörum og þá aðallega frá stofnunum, verslunum og matsölustöðum.“
Eiður á lokaorðið: „Mér finnst vera að koma meiri alhliða stöðugleiki í þetta þannig að ég kvíði ekki framtíðinni. Mér finnst allt vera einhvern veginn bjartara framundan fyrir hönd íslensks iðnaðar.“