Það er oft kvartað yfir háu matvælaverði hér á landi. En það gleymist að við höfum ekki verið nógu dugleg við að nýta ódýran mat. Víða erlendis er t.d. mikil pylsu- og bjúgnamenning þar sem menn nýta ódýrt hráefni í ódýrari matvörur. Þar er matreiðsla á þeim mun fjölbreyttari en tíðkast hefur hér. Búnir eru til pasta-, hrísgrjóna- og pottréttir ýmiskonar, pylsur bornar fram með grænmetisuppstúf og alls kyns mismunandi sósum, svo sem súrsætum, pestó o.s.frv.; þær eru settar í salöt, eggjakökur og svo mætti lengi telja.
Pylsur, búðingar, bjúgu og innmatur, sem og afurðir úr innmat, njóta nú aukinna vinsælda á ný og selst sem aldrei fyrr. Hagstætt verð, hollusta og gæði þessa hefðbundna matar eru talin stuðla að aukinni sölu þessara matvara, sem um tíma áttu í vök að verjast.
Sala á lifrarpylsu og blóðmör hafa aukist mjög, en Kjarnafæði selur bæði ósoðið frosið og soðið slátur. Meðal kaupenda eru stofnanir á borð við leikskóla, grunnskóla og verslanir. Hollusta innmatar og afurða úr honum er mikil og er svo komið að læknar ráðleggi guggnum unglingsstúlkum að borða slátur sér til heilsubótar.
Á Íslandi, hjá vissum hópum, hefur verið uppi sú skoðun að unnar vörur séu svo óhollar að það eigi ekki að leggja sér þær til munns. Þarna er verið að rugla saman ‘unnum vörum’ og ‘UNNUM vörum’, þeim nútíma unnu vörum sem eru djúpsteiktar eins og td. snitsel (líki), Cordon Bleu, kótelettur (líki), sem eru með allt að 50% fituinnihaldi (að uppistöðu hertri fitu), á meðan þessar hefðbundnu ‘unnu kjötvörur’ eru með 15-25% af náttúrulegri fitu. Það má heldur ekki rugla saman þurrsteiktum snitsel úr ekta vöðva eða djúpsteiktum snitsel, sem er útbúinn úr soffu og sett í snitselmót og nefnt ‘snitsel’.
Í seinni tíð hafi Íslendingar valið að borða lungann úr afurðum, steikur og þess háttar gæðabita, sem kosta sitt, en sneitt hjá ódýrari afurðum. Meðan við höfum borðað miðjuna úr nautalundinni og öðrum steikum, sem er að sjálfsögðu gott, eru aðrar þjóðir að matreiða fjölbreyttan veislumat úr unnum vörum. Verðlagið þarna á milli er auðvitað ekki samanburðarhæft.
Ég hef tekið eftir því að betri matráðar eru farnir að breyta viðhorfi sínu gagnvart unnum kjötvörum og hefðbundnum heimilismat. Þetta er mjög jákvæð þróun og ég hef beðið eftir henni í mörg ár. Vakning hefur orðið varðandi gamlar íslenskar matarhefðir, auk þess sem Íslendingar eru farnir að læra af ferðalögum erlendis að elda fjölbreytta rétti úr unnum kjötvörum. Þetta virðist leggjast vel í ungt fólk og nú sækjast nýjar kynslóðir í auknum mæli eftir slíkum mat. Það er vel hægt að kaupa og elda góðan og ódýran heimilismat á Íslandi ef fólk er svolítið hagsýnt og skapandi við eldamennskuna.
Eiður Gunnlaugsson