Það er ekki á hverjum degi sem fyrirtæki á Íslandi verða 100 ára, en í dag þann 26. febrúar eru nákvæmlega 100 ár liðin frá stofnun Sölufélags Austur Húnvetninga svf. Ekki verður annað sagt en að afmælisbarnið beri aldurinn vel og hafi braggast allnokkuð á liðnum áratugum.
Bændur og aðrir viðskiptamenn félagsins hafa alla tíð staðið þétt að baki félaginu og síðar arftaka þess SAH Afurðum ehf. Þessi stuðningur er þakkarverður og er hér með þakkaður. Vonandi verður áfram jafn gott samstarf við bændur og aðra viðskiptavini á næstu árum og undanfarin 100 ár.
Síðustu átta ár hafa verið miklir umbrotatímar á íslenskum kjötmarkaði. Sláturhúsum hefur fækkað mjög og þau stækkað. Sem betur fer hafa Sölufélag Austur Húnvetninga og síðar SAH Afurðir vaxið og dafnað og er það ekki síst að þakka stuðningi eigenda félagsins og góðu starfsfólki.
Rekstur Sölufélags Austur Húnvetninga felst nú eingöngu í rekstri fasteigna og að halda utanum 51% eignarhlut í SAH Afurðum. Það félag hefur stækkað og eflst og vinna nú að staðaldri um 46 manns hjá félaginu við slátrun, frágang kjöts og þjónustu við bændur og aðra viðskiptavini.
Það er einmitt öflug þjónusta sem var aðalsmerki Sölufélags Austur Húnvetninga og hjá SAH Afurðum er fetað á sömu braut, allt frá því sláturdagar eru ákveðnir til þess er afurðir hafa verið greiddar til bænda og ekki síður afgreiddar á réttum tíma til viðskiptavina.
Félagsmönnum Sölufélags Austur Húnvetninga, og eigendum SAH Afurða er hér með óskað til hamingju með áfangann. Til að fagna áfanganum verður efnt til grillveislu og opins húss á komandi sumri, sem auglýst verður nánar síðar.
Sig. Jóh. framkvæmdastjóri SAH Afurða efh.