Nýverið var undirritaður samstarfssamningur milli Kjarnafæðis og Klúbbs Matreiðslumeistara. Samningurinn var undirritaður í hinum glæsilega Turni við Smáratorg. Er þetta mjög góður samningur fyrir báða aðila. Kjarnafæði er stórt og öflugt fyrirtæki á kjötmarkaði sem hefur stækkað hratt undanfarin ár og á stóran kúnnahóp meðal félaga í Klúbbi Matreiðslumeistara.
Á næstu fimm árum mun Kjarnafæði styrkja hina mikilvægu starfsemi Klúbbs Matreiðslumeistara bæði með fjárframlagi og hráefni. Á móti mun Klúbbur Matreiðslumeistara vinna með Kjarnafæði í formi aðstoðar við vöruþróun, einnig við kynningar, uppskriftir og auglýsingar.
Við hjá Kjarnafæði er virkilega stolt að vera orðin samstarfsaðili Klúbbs Matreiðslumeistara. Klúbbur Matreiðslumeistara er framvörður íslenskrar matarmenningar og hefur á undanförnum áratugum átt stóran þátt í framþróun hennar. Við hjá Kjarnafæði teljum mikilvægt að leggja Klúbbnum lið til að styðja við hið góða starf hans.
Á meðal þess sem Klúbbur Matreiðslumeistara stendur í er að hafa umsjón með Landsliði íslenskra matreiðslumanna, umsjón með fagkeppnum matreiðslumanna, skrásetja og skilgreina Íslenskt eldhús, ásamt fleiri góðum og þörfum verkefnum (sem má sjá á heimasíðu Klúbbsins).