Sölufélag Austur Húnvetninga er með stærri vinnuveitendum á staðnum, veltan á síðasta ári var um 750 milljónir króna.
Sölufélagið mun eiga 51 prósent í nýja félaginu, verði ákveðið að stofna það, formleg afstaða verður tekin á félagsfundi á mánudaginn.
Gert er ráð fyrir að einstaklingar og fyrirtæki kaupi 15% hlutafjár. Heildarhlutafé verður í fyrstu allt að 188 milljónum króna.
Sölufélag Austur Húnvetninga, sem er alfarið í eigu bænda, er eitt af elstu starfandi fyrirtækjum landsins á sínu sviði, stofnað árið 1908.
Kjarnafæði, sem er alhliða matvælafyrirtæki, var stofnað árið 1985 af bræðrunum Eiði og Hreini Gunnlaugssunum. Velta fyrirtækisins á nýliðnu ári var um 1,5 milljarður króna. Kjarnafæði h.f. á einnig ráðandi hlut í salatgerðinni Nonna Litla, Norðanfiski ehf og hlut í Sláturfélagi Vopnfirðinga. Samanlögð velta allra félaganna var 2.300 millj. króna. árið 2005 og starfsmenn um 130.
Eiður Gunnlaugsson segir að mikil samþjöppun hafi átt sér stað á kjötmarkaði hérlendis á undanförnum árum. Kjarnafæði sé með þátttöku í nýju fyrirtæki að tryggja enn frekar starfsemina.