Um helgina fór fram Kjarnafæðismótið í körfubolta sem haldið er fyrir krakka 12 ára og yngri. Mótið var haldið í íþróttahúsinu við Síðuskóla. Auk heimamanna í Þór voru skráð til leiks lið frá Tindastól, Dalvík, Smáranum og Reykdælum.
Blásið var til leiks í fyrstu leikjunum kl. 14:00 og var leikið linnulítið og lauk mótinu kl. 19:00. Í mótslok fengu allir keppendur viðurkenningar og þá var einnig grillaðar Kjarnafæðispylsur og þeim rennt niður með Svala.
Hvað segir Ágúst Guðmundsson formaður unglingaráðs er hann sáttur með hvernig til tókst og megum við eiga von á því að þetta mót verði aftur að ári? ,,Já, því er fljótsvarað, við ætlum okkur að halda mót sem þetta aftur að ári liðnu! Hugmyndin er að gera þetta að stærra móti en nú er en taka jafnframt eitt skref í einu þannig að umfangið vaxi okkur ekki um hrygg. Mótið núna gekk afar vel fyrir sig og tímasetningar stóðust í alla staði sem er afar mikilvægt í mótum sem þessum. Við fundum fyrir mikilli ánægju bæði barna og foreldra þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði að halda þessu áfram þannig að úr verði stórt og myndarlegt mót í framtíðinni. Ég vil sérstaklega þakka öllum þeim sem að mótinu komu og þá einkum aðalstyrktaraðila þess, Kjarnafæði “ sagði Ágúst í stuttu spjalli við heimasíðuna.
Fjölmargir áhorfendur mættu á mótið og skemmtu sér hið besta.
Búið er að setja myndir frá mótinu í myndaalbúm og þær má sjá með því að smella hér.