Kjarnafæði hefur ekki hækkað verð í vörulista sínum síðan í október 2007 og stefnt er að því að halda óbreyttum verðlista út apríl, jafnvel út maí og meta þá stöðuna í byrjun júní.
Við hjá Kjarnafæði höfum ákveðið að halda verðlistanum óbreyttum, þrátt fyrir miklar hækkanir sem dunið hafa á okkur á undanförnum vikum og mánuðum. Miklar hækkanir hafa orðið á helstu kostnaðarliðum, ss. hráefni, launum, umbúðum, flutningsgjöldum og eldsneyti.
Fallandi gengi, háir vextir og verðbólga eru verstu óvinir landsmanna og teljum við það hluti af samfélagslegri ábyrgð okkar að forðast hækkanir eins og kostur er og verða þannig við tilmælum viðskiptaráðherra, forustumanna ASÍ, sem og Neytendasamtakanna.
Rekstrarumhverfi kjötiðnaðarins hefur ekki verið sérlega hagstætt undanfarin ár og kostnaðarhækkanir undanfarið hafa ekki hjálpað til en niðurstaðan er sú að það er sameiginleg ábyrgð hvers fyrirtækis að sporna við óhóflegri verðbólgu og taka þátt í baráttunni gegn versnandi kjörum almennings.