Kjarnafæði gaf í gær 302.900 krónur í Gjafasjóð Sjúkrahússins á Akureyri en það var allt andvirði söfnunnar á sýningunni Matur-Inn 2013 sem haldin var í Íþróttahöllinni á Akureyri síðastliðna helgi. Kjarnafæði í samvinnu við Ölgerðina sem gaf Pepsi, Appelsín og Floridana heilsusafa og Ekruna sem gaf áleggið á pylsurnar, safnaði þessari fjárhæð með því að selja pylsur og gos á 100 kr. Verðinu var stillt í hóf en fólki var svo að sjálfsögðu frjálst að gefa meira, sem það var duglegt við.
Bjarni Jónasson forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri tók með þökkum við ávísuninni úr höndum Ólafs Más Þórissonar markaðsstjóra Kjarnafæðis. Við það tilefni þakkaði Bjarni sýndan hug almennings og Kjarnafæðis til Sjúkrahússins. Hann vonaðist jafnframt til þess að þessi styrkur gæti aukið vitund annarra fyrirtækja á því hversu auðvelt og ekki svo kostnaðarsamt getur reynst að safna fyrir gott málefni. ,,Þrátt fyrir að verulega kreppi að í heilbrigðiskerfinu nú um stundir þá er margt jákvætt í gangi og jákvæður hugur og vilji almennings endurspeglast m.a. í gjöfum sem þessari," sagði Bjarni meðal annars.
Ástæðan fyrir því að Gjafastjóðurinn var valinn er til að mynda vegna þess að í sumar var keypt nýtt röntgentæki á Sjúkrahúsið fyrir tæpar 70 milljónir króna. Þar af leiðir að sjóðurinn var orðinn verulega rýr og vonast Kjarnafæði líkt og Bjarni að þetta sé aðeins fyrsta innleggið af mörgum á þennan sjóð, frá öðrum fyrirtækjum bæjarins.
Kjarnafæði vill jafnframt þakka öllum þeim sýningargestum sem tóku þátt í þessari söfnun og um leið öllum sem komu við í básnum okkar sem var með glæsilegasta móti þetta árið enda hannaður af Geimstofunni.