Vinnustaðakennslustyrkir Samtaka Iðnaðarins voru afhentir í fyrsta sinn í gær. Sex fyrirtæki hlutu styrki sem nema rúmlega fjórum milljónum króna. Kjarnafæði var eitt þeirra.
Norðlensku kjötiðnaðarfyrirtækin Kjarnafæði og Norðlenska hlutu hæstu styrkina, rúmlega 1,1 m. kr. hvort. Prentfyrirtækin Landsprent, ODDI, Gutenberg og Árvakur hlutu 470 þ. kr. hvert.
Jón Steindór framkvæmdastjóri samtaka iðnaðarins, sagði að styrknum væri ætlað að koma til móts við kostnað fyrirtækja af vinnustaðakennslu en ekki til að greiða hann að fullu. Samtök iðnaðarins hvettu stjórnvöld til að leggja a.m.k. sambærilega fjárhæð til verkefnisins enda bæru stjórnvöld ábyrgð á iðn- og starfsnámi.
Mikilvægt er fyrir kjötiðnaðinn að blása lífi í glæðurnar og fá aukinn kraft í fagið nú þegar samkeppni eykst erlendis frá. Það er því nauðsynlegt að koma þekkingunni áfram til yngri kynslóða og þá er svona styrkur afar mikilvægur og gefur okkur í raun smá spark um leið og hvatningu til að sinna þessu enn betur en gert er í dag. Í dag eru 2 nemar hjá Kjarnafæði og mun annar þeirra ljúka prófi nú í vor. Vonandi verður aukning þar á og mun Kjarnafæði auglýsa eftir nemum í fagið nú í sumar.
Kjötiðnaðarmeistarar Kjarnafæðis hafa sýnt það og sannað að þeir eru í fremstu röð á Íslandi og til að mynda er kjötiðnaðarmeistari Íslands, Helgi Jóhannsson, frá Kjarnafæði. Kjötiðnaðarnemar Kjarnafæðis hafa einnig sýnt dug sinni í verki og m.a. vann Jón Þór ‘Jóndi’ sigur í keppninni um kjötiðnaðarnema ársins í fyrra.
Samtök Iðnaðarins eiga heiður skilinn fyrir þetta framtak og sýna mikið innsæi í að byrja með þessa styrki nú þar sem iðnnám er í mikilli sókn. Þetta er mikið gleðiefni.