Kjarnafæði fær C og B vottun á gæðakerfið frá Samtökum iðnaðarins

Jóhann Sigurðsson og Eðvald Valgarðsson
Jóhann Sigurðsson og Eðvald Valgarðsson
Kjarnafæði hefur nú fengið C og B vottun frá SI eftir að Ferdinand Hansen kom og tók út gæðakerfið. Áður hafði Kjarnafæði fengið D vottun fyrr í haust og stefnt er að því að klára A vottun fyrir áramót. Hér að neðan má sjá frétt frá SI um málið, og einnig má skoða fréttina á si.is

 

Kjarnafæði hlýtur D, C og B - vottun

27.11.2012

Kjarnafæði hefur staðist úttekt á fyrsta, öðru og þriðja þrepi áfangaskiptrar gæðavottunar Samtaka iðnaðarins og hlotið D og C  og B vottun. 

Eðvald Sveinn Valgarðsson, gæða- og innkaupastjóri Kjarnafæðis segir að miðað við framtíðarstefnu fyrirtækisins skipti öllu máli að hafa gæðamálin í fyrsta sæti. „Við höfum breytt miklu hjá okkur í flæði og ferlum innanhúss og erum enn að breyta og bæta til að standast allar þær kröfur sem eru gerðar til okkar og ekki síður þær sem við gerum til okkar sjálf. Rekjanleikinn er að detta á að fullu hjá okkur og þá eigum við að geta sagt upp á dag hvaðan allt hráefnið er í spægipylsunni okkar eða pepperoni.“ Samhliða því er unnið að vottunum SI auk þess sem við stefnum að því að uppfylla ISO-9001 á árinu 2013. „Ég var á námskeiði fyrir stuttu í þeim staðli og ég held ég geti fullyrt að kerfið okkar í dag mætir stórum hluta af 9001 staðlinum. Það tekur tíma og vinnu en þar er líka hægt að vinna með kerfið frá SI og aðlaga það eða vitna í 9001 staðlana. Við komum því til með að halda áfram með SI kerfið sem okkar gæðakerfi“ segir Eðvald Sveinn.

Eðvald segir að gæðakerfi frá SI hafi verið tekið upp í kjölfar ákvörðunar stjórnenda Kjarnafæðis um að styrkja gæðaeftirlit í fyrirtækinu, enda sé Kjarnafæði félagsmaður og öll samskipti við samtökin hafi verið góð. „Kjarnafæði er í dag meðalstórt matvælafyrirtæki sem hefur frá upphafi vaxið eftir efnum og menn stigið varlega til jarðar. Framleiðsla og fjöldi vörutegunda hefur aukist mikið og allt ferlið er orðið mun flóknara en áður. Það var því eðlilegt framhald að menn vildu einfaldlega setja gæðamálin á stall og taka þau föstum tökum.“

Uppsetning kerfisins frá SI er skýr og einföld að sögn Eðvalds og þó svo kerfið sé meira notað í mannvirkja- og verktakageiranum var einfalt að laga það að þörfum Kjarnafæðis þrátt fyrir krefjandi og flókið umhverfi og regluverk sem matvælaframleiðsla býr við. Hann segir að fyrirtækið uppfylli matvælalöggjöf Evrópusambandsins sem nýverið var innleidd, uppsetning gæðakerfisins hafi einfaldað alla vinnu við að mæta þeim kröfum og að hluta séu kröfurnar þær sömu og finnast í SI kerfinu í dag. „Þó að matvælalöggjöfin innihaldi eðlilega sérkröfur og reglur þar sem meðal annars er um viðkvæma ferskvöru að ræða, þá var ekki flókið að finna rétta staði fyrir þær í kerfinu. Það er því þægilegt að vinna með kerfið og bæta við eftir þörfum“ segir Eðvald. „Við erum núna að taka síðustu skrefin að A – vottun og stefnum að því að ljúka henni fyrir 1. janúar 2013. Þessi uppsetning hjá SI með þrepin hjálpar mikið, við höfum einfaldlega fylgt þeim og unnið markvisst að því að uppfylla skilyrðin sem þar finnast.“

Eðvald vildi að lokum koma þökkum til Ferdinandar Hansen, gæðastjóra SI. „Ferdinand er hafsjór af fróðleik í þessum málum og maður getur alltaf hringt í hann og velt upp pælingum og fengið góð ráð.  Það er ekkert sjálfgefið í dag. Hann hefur komið í heimsókn norður og tekið okkur út og gefið góð ráð um leið. Við þurfum því endilega að fá hann í heimsókn aftur fyrir jól til að klára pakkann og fá A vottun.“