Ástæðan fyrir glæstum árangri er sú að hópurinn sem samanstendur af frábæru hæfileikafólki, kokkum konditorum og meistara í sykurskreytingum hefur lagt á sig þrotlausa vinnu og æft sig viðstöðulaust fyrir mótið í tæp tvö ár. Þá hafa liðsmenn allir stuðning sinna vinnuveitenda til að taka þátt í keppnisstarfinu sem er afar tímafrekt og við njótum þess að eiga frábæra stuðningsaðila sem gera þetta allt mögulegt. Án styrkja myndi þetta starf ekki ganga upp því þáttakan er afar kostnaðarsöm en að mínu mati nauðsynleg fyrir fagið og fyrst og síðast frábær landkynning sem nýtist okkar útflutningi og ferðaþjónustunni.
Þáttökurétt á heimsmeistaramóti hafa ríflega 80 þjóðir með 10 milljónir meðlima en í þetta sinn komust 28 þjóðir inn í keppnina milli bestu kokkalandsliða heimsins. Við erum mjög ánægð með það að hafa náð að hækka okkur um 3 sæti á heimslistanum og ná 7. sæti samtals þar sem stig úr köldum og heitum mat hafa verið lögð saman. Á mótinu er svo keppt í ýmsum öðrum keppnum eins og ungkokkakeppnum, sykurlistaverkum ofl.