„Á ákveðnum tíma gekk þetta vel og var til að mynda slátrað ríflega 10.000 fjár í ágúst fyrir fáum árum síðan. Allt frá þeim tíma hefur slátrun í ágúst dregist saman og var slátrað ríflega 350 fjár í ágúst á síðastliðnu ári. Þrátt fyrir að umtalsverðar yfirborganir hafi verið í boði,“ segir Sigurður Jóhannesson.
Í ljósi þessarar þróunar hefur verið ákveðið að sauðfjárslátrun hefjist hjá SAH afurðum 1. september. SAH afurðir greiða 40 krónur í uppbót fyrir kílóið og að auki greiðir Markaðsráð 300 krónur fyrir hvern dilk sláturvikuna 31.ágúst til 4. september. Yfirborgun SAH afurða vikuna 7. til 11. september verður 35 krónur fyrir kílóið.
Sigurður Jóhannesson segir að því miður séu ekki forsendur til hærri yfirborgana vegna almennt erfiðra efnahagsaðstæðna í þjóðfélaginu og ekki síður vegna markaðsaðstæðna.
Hjá SAH afurðum er slátrað sauðfé af svæði sem nær frá Kelduhverfi í austri til Dýrafjarðar í vestri, ásamt fé úr Borgarfirði, Dölum og Þingvallasveit. Nautgripum og hrossum er slátrað eftir því sem framboð gefur tilefni til. Samhliða rekstri sláturhúss er rekin kjötvinnsla sem stofnuð var 1963, þar sem megináherslan er lögð á grófvinnslu fyrir aðrar kjötvinnslur.