Allt á útopnu í jólatörninni!

Ólafur R. Ólafsson
Ólafur R. Ólafsson
Mikill vöxtur í starfsemi Kjarnafæðis á undanförnum árum:Mikill vöxtur í starfsemi Kjarnafæðis á undanförnum árum:

Gríðarlegur vöxtur hefur orðið í starfsemi Kjarnafæðis á Akureyri undanfarin ár og hefur fyrirtækið vart undan að anna eftirspurn. Það segir sína sögu að nú starfa um 130 manns hjá fyrirtækinu – á Akureyri, Svalbarðseyri og í Reykjavík. Auk kjarnastarfseminnar sem er kjötvinnsla, á Kjarnafæði dótturfyrirtækið Nonna litla, sem framleiðir salat og tilbúna rétti og er staðsett í Mosfellsbæ, Kjarnafæði á helmings hlut í Norðanfiski á Akranesi og á hlut í sláturhúsunum á Blönduósi og Vopnafirði. Velta Kjarnafæðis á þessu ári verður fast að tveimur milljörðum króna, en með dótturfyrirtæki og tengdum fyrirtækjum verður hún á bilinu  3,5-4 milljarðar.

 

Áhersla á öfluga vöruþróun
“Það er rétt að það hefur verið mjög mikill vöxtur hjá okkur undanfarin ár, sem ég tel að skýrist að hluta til af öflugri vöruþróun hjá okkur. Það lætur nærri að við séum að koma með allt að tug nýrra vara á markaðinn í hverjum mánuði, en í það heila eru virk vörunúmer hjá okkur á bilinu fimm til sex hundruð,” segir Auðjón Guðmundsson, markaðsstjóri Kjarnafæðis.

Öll framleiðsla Kjarnafæðis er á Svalbarðseyri, en pökkun og dreifing er á Akureyri. “Við höfum verið að auka okkar hlut á neytendamarkaði jafnt og þétt og þar er Bónus  okkar stærsti viðskiptavinur. Einnig þjónum við fjölmörgum stórum fyrirtækjamötuneytum, skólamötuneytum o.s.frv.,” segir Auðjón.

Hangikjötið er sívinsælt!
Það fer ekki á milli mála þegar komið er inn í vinnslusali Kjarnafæðis þessa dagana að mikið stendur til. “Jú, jólatörnin er í fullum gangi og þá leggjum við nótt við dag,” segir Auðjón og bætir við að þrátt fyrir mikið álag sé þessi árstími skemmtilegur. “Áherslan er hvað mest á hangikjöt og hamborgarhryggina, en síðan eru alltaf einhverjar nýjar vörur. Við erum til dæmis núna í fyrsta skipti með sænska jólapylsu, sem fólk hefur verið að spyrja töluvert eftir. En hangikjötið er tvímælalaust vinsælast fyrir jólin, enda er fólk fastheldið á sína jólasiði. Það er eftirtektarvert hversu mikið hangiframpartur með beini hefur verið að sækja í sig veðrið og einnig hefur verið töluverð aukning í tvíreyktum húskarla hangikjötslærum, sem Jólahúsið í Eyjafjarðarsveit hefur selt mikið af.”

Eitt tekur við af öðru. Þorravertíðin brestur á í janúar og þar er Kjarnafæði afar stór framleiðandi – reyndar var byrjað að huga að framleiðslu á þorramatnum strax í ágúst sl. Og síðan koll af kolli. Unnið er á vöktum allan ársins hring til þess að mæta spurn eftir framleiðsluvörum Kjarnafæðis, sem Auðjón segir að hafi verið stigvaxandi og fátt bendi til annars en að hún haldi áfram að aukast.
Grein og myndir: Óskar Þór fyrir Athygli